HK/Víkingur tveir leikmenn til viðbótar í 100 leiki

Á síðasta heimaleik HK/Víkings gegn Tindastóli voru tveir leikmenn heiðraðir fyrir að ná 100 leikja markinu. Þær Milena Pesic og Þórhanna Inga Ómarsdóttir náðu því marki þar með og urðu tólfti og þrettándi leikmaður HK/Víkings sem nær því marki.

Þar með fylkja þær liði með þeim ellefu sem fyrr hafa náð þessu marki þær eru, taldar upp í leikjafjöldaröð: Lára Hafliðadóttir,  Tinna Óðinsdóttir, Ellen Bjarnadóttir, Karen Sturludóttir, Heiður Loftsdóttir, Valgerður Tryggvadóttir,  Ingibjörg Björnsdóttir, Berglind Bjarnadóttir, Hugrún María Friðriksdóttir, Anna Margrét Benediktsdóttir og Sigurrós María Sigurbjörnsdóttir.

Milena gekk til liðs við HK/Víking þegar liðið lék í Pepsi deildinni 2013 og lék sinn fyrsta leik 7. maí það ár. Hún er nú á sínu fimmta ári með liðinu. Hún er nú búin að leika einna lengst samfellt með liðinu af þeim sem skipa það nú og er líka elst í árum talið fædd 1984. Ekki ónýtt fyrir unga og efnilega leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki að hafa liðsfélaga með slíka reynslu sér við hlið. Í leikjunum 100 hefur Milena skorað 35 mörk.

Þórhanna Inga sem er uppalin Víkingur lék sinn fyrsta meistaraflokksleik á móti KR í Reykjavíkurmótinu 23. janúar 2011, sautján ára gömul en hún er sléttum tíu árum yngri en Milena fædd 1994. Þórhanna var þannig heldur lengur en Milena að safna í leikina 100 en það tók hana eðlilega nokkra stund að vinna sér fast sæti í liðinu auk þess sem hún hefur dvalið við nám í Bandaríkjunum á veturna síðustu tvö ár. Þórhanna hefur skorað eitt mark með liðinu enda varnarmaður.