Almennt um íþróttaskóla HK og Spörtu

Íþróttaskóli HK

Markmið íþróttaskóla HK og Spörtu

Markmið íþróttaskólans er að auka hreyfiþroska barnanna, efla styrk þeirra, þor og þol og vinna með félagsþroska. Allir tímar byrja með upphitun og enda á teygjum/slökun.

Íþróttaskólinn er góður vettvangur fyrir börnin til þess að undirbúa þau fyrir hinar hefðbundnu íþróttagreinar.

Það er ósk okkar að foreldrar taki fullan þátt í leik barnanna og fá því að puða með þeim í hvers lags leikjum. Íþróttaskólinn er tilvalinn staður til að upplifa með börnunum hreyfingu við aðrar aðstæður en þau þekkja. Það er einnig afar mikilvægt að börn fái tækifæri til að reyna sig í ólíkum aðstæðum þar sem þörf er á að skríða, hoppa, rúlla og velta sér, hlaupa um og klifra.

Dagskrá íþróttaskólans

Dagskrá íþróttaskólans er fjölbreytt og skemmtileg en hver tími er jafnan tvískiptur þar sem annars vegar er þrautabraut með áhöldum og hins vegar unnið með bolta, gjarðir, mottur, dagblöð, sippubönd og önnur áhöld.

Hreyfing ungra barna ætti fyrst og fremst að vera í formi leikja og verkefna sem kveikja áhuga, efla þor og færni. Stærsti sigurinn er þó að börnin upplifi gleði og góða samverustund með forráðamönnum sínum.

Kennarar

Kennarar í íþróttaskólans eru þau Guðrún Halla og Vilhjálmur Gunnar.

Guðrún Halla Guðnadóttir

Útskrifaðist sem ÍAK einkaþjálfari árið 2013 og með B.Sc í sjúkraþjálfunarfræði frá HÍ. Stundar mastersnám í sjúkraþjálfun.
Hefur komið að styrktarþjálfun ólíkra hópa, allt frá börnum upp í íþróttalið.
Er yfirþjálfari þjálfunarstöðvar Spörtu.

Vilhjálmur Gunnar Pétursson

Villi er útskrifaður ÍAK einkaþjálfari árið 2009, ÍAK styrktarþjálfari 2010, heilsunuddari frá Nuddskóla Íslands 2016 og er í dag  að leggja lokahönd á nám í næringarþjálfun.
Hann hefur einnig unnið sem styrktarþjálfari hjá Haukum og knattspyrnudeild HK.