Sýnum Karakter

Sýnum karakter er átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum og kemur grunnhugmyndin að verkefninu kemur frá dr. Viðari Halldórssyni, félagsfræðingi við Háskóla Íslands, og Valdimari Gunnarssyni hjá UMSK.

Hugmyndafræði verkefnisins, sem byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda, smellpassar inn í stefnu HK um þjálfun og afrek. Þannig að, þó svo að um sé að ræða átaksverkefni UMFÍ og ÍSÍ þá hefur HK tileinkað sér verkefnið og komið því inn í sína íþróttastefnu til frambúðar.

Félagslegi þátturinn er HK-ingum gífurlega miklvægur og vinnur félagið markvisst að því að efla iðkendur HK, skila af sér góðum einstaklingum og miklum HK-ingum út í samfélagið. Sú vinna er unnin markvisst eftir sameiginlegri stefnu allra deilda þar sem allir þjálfarar vinna að sama markmiði. 

Í gegnum tíðina hefur áherslan í íþróttaþjálfun verið á líkamlega og tæknilega færni. Helsta markmið með verkefninu er því að hvetja þjálfara félagsins til að leggja enn meiri og markvissari áherslu á að byggja upp góðan karakter hjá iðkendum, með þjálfun sálrænna og félagslegra eiginleika barna og ungmenna.

Þjálfun karakters barna og ungmenna í íþróttum hjá HK gerir félaginu kleift að sinna hvort í senn uppeldishluta og afrekshluta íþróttastarfsins, því góðir karakterar eru vel í stakk búnir til að takast á við lífið og einnig til að ná árangri í íþróttum.

HK hóf stefnumótunarvinnu í þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni í október 2016 með sameiginlegum þjálfarafundi allra deilda. Þar mættu um 45 þjálfarar sem tóku þátt í að vinna og móta stefnu félagsins á þessu sviði. Eftir þá vinnu var unnið úr gögnum og útbúin sex vinnuskjöl um þætti verkefnisins; einbeitingu, félagsfærni, áhuga, markmiðasetningu, leiðtoginn og sjálfstraust. Hver þáttur var unninn út frá aldursbili (flokkum) iðkenda og nýtist því öllum þjálfurum félagsins.

Verkefnið er lifandi og verður stöðugt í þróun en framvegis verður æfingaáætlun þjálfara að taka mið af þessari stefnu.

Íþróttastjóri HK er stjórnandi verkefnisins en aðkoma yfirþjálfara deildanna er gífurlega mikilvæg þar sem þeir hafa meiri tengingu við sína þjálfara dagsdaglega.

Þó að stefnan nái fyrst og fremst til þjálfara félagsins og þjálfunar í félaginu þá er ekki síður mikilvægt að allir sem koma að íþróttastarfi barna og ungmenna, þ.e. stjórnarfólk, starfsfólk, kennarar og foreldrar, kynni sér innihald og áherslur Sýnum Karakter.

Ef allir HK-ingar vinna saman að því að bæta og styrkja karakter ungu kynslóðarinnar þá verður framtíð þeirra, HK og okkar allra enn bjartari og betri.