Saga félagsins


Haustið 1969 ákváðu átta 12 ára strákar úr Kársnesskóla að taka á leigu íþróttasal hjá ÍR í íþróttahúsi þeirra við Túngötu í Reykjavík.

Ástæðan fyrir þessu uppátæki strákanna var sú að í Kópavogi var aðeins eitt íþróttafélag, Breiðablik, og aðeins einn lítill íþróttasalur, við Kópavogsskóla og því ekkert um að vera á veturna í íþróttum fyrir fjörmikla stráka sem vildu fá útrás í einhverri líkamlegri hreyfingu. 

Á sumrin æfðu sumir þessara stráka fótbolta með Breiðabliki, en á veturna var aðeins ein æfing í viku hjá þeim í Kópavogsskóla í innanhússfótbolta.

Tveir af þessum átta strákum höfðu æft frjálsar íþróttir hjá ÍR og þekktu því vel til á Túngötunni og þjálfarann sem þar starfaði, Guðmund Þórarinnsson, sem varð svo fyrsti þjálfari strákanna í handbolta. 

Ákveðið var að félagið okkar skyldi heita Handknattleiksfélag Kópavogs og voru æfingar tvisvar í viku á Túngötunni til að byrja með. Húsaleigan fyrir hvern tíma var 160 krónur eða 20 krónur á mann. 

Um þetta leyti var Halldór í Henson sportvörum að stofnsetja fyrirtæki sitt og var fyrsti búningur HK saumaður hjá fyrirtæki hans, en búningurinn var rauð treyja (síðerma) hvítar buxur og hvítir sokkar. 

Strax í upphafi notuðu strákarnir í HK fjölmiðlana og fóru á ritstjórnarskrifstofur dagblaðanna og birtust viðtöl við þá um hið nýja félag sem þeir höfðu stofnað. Þá var blaðaljósmyndari boðaður á æfingu upp í Túngötu þegar við fengum nýju búningana okkar afhenta í fyrsta sinn og mátti segja að við höfum verið mikið í fjölmiðlunum þennan vetur.

Einnig kom Geir Hallsteinsson, sem þá var fyrirmynd og hetja allra ungra handknattleiksmanna á Íslandi, í heimsókn á æfingu til okkar og þá kom blaðamaður einnig á svæðið og birti grein um þessa heimsókn ásamt ljósmyndum í einu dagblaðanna.

Þennan vetur tókum við þátt í Íslandsmótinu í handknattleik í fyrsta sinn og sendum við einn flokk til keppni, en þá vorum við strákarnir í 4. flokki og spiluðum við sem gestir, þar sem félagið var ekki orðið aðili að ÍSÍ. 

Leikið var í Hálogalandi, gömlum bragga frá stríðsárunum sem stóð inn við Gnoðarvog í Reykjavík, en á þessum tíma voru íþróttahús af skornum skammti í henni Reykjavík líka.

Það er skemmst frá því að segja að við töpuðum öllum leikjunum okkar í Íslandsmótinu þetta árið. Þann 26. janúar 1970 var félagið síðan formlega stofnað og var formaður kosinn Magnús Gíslason, Hilmar Sigurgíslason var kosinn ritari og Valdimar Óli Þorsteinsson var kosinn gjaldkeri og meðstjórendur voru kosnir þeir Guðmundur R. Jónsson og Bergsveinn Þórarinsson. Íþróttahúsið við Kársnesskóla var síðan tekið í notkun veturinn 1970 og var húsið formlega opnað með leik 4. flokks HK við Bæjarstjórn Kópavogs og var leikurinn tekinn upp á 8mm vél og var sýndur hluti af leiknum í kvöldfréttum sjónvarpsins. 

Hér má sjá video af umræddum leik

https://kopavogur.datadwell.com/p/afmaelissyning/v/12/1765_M-14216_2_9?191673=1 

Hófust þá æfingar HK í Kárnesskóla og fjölgaði ört í flokknum okkar, jafnframt því sem við stofnuðum flokk fyrir eldri strákana (3.flokk). Fjáraflanir voru settar í gang til að standa straum af kostnaði við félagið og fyrst skal nefna getraunir, sem við settum í gang í Kársnesskóla.

Þá fengum við ómetanlega aðstoð frá skólastjóranum okkar, Gunnari Guðmundssyni, en hann lánaði okkur sal skólans undir kvikmyndasýningar og diskótek. Yfirkennarinn við Kársnesskóla var Þórir Hallgrímsson, formaður Breiðabliks til margra ára. Var er ekki laust við að hann liti þetta uppátæki okkar strákana hornauga en aldrei sló þó alvarlega í brýnu á milli okkar á þessum árum.

Ákveðið var að sækja um inngöngu í UMSK og síðan ÍSÍ til þess að vera fullgildir þátttakendur í Íslandsmótinu árið eftir. Til þess þurftum við að fá feður okkar í lið með okkur, því við vorum of ungir til að stjórnin gæti talist lögleg. 

Þeir Þorvarður Áki Eiríksson, sem varð formaður félagsins, Jón Ármann Héðinson, sem varð ritari,og Þorstein Alfreðsson, sem varð gjaldkeri, veittu okkur fulltingi sitt.

Það var mikil gæfa fyrir HK að fá Þorvarð Áka til starfa fyrir félagið. Hann fylgdi okkur strákunum eftir hvert fótmál, hvatti okkur til dáða og opnaði heimili sitt fyrir okkur hvenær sem var og var það á stundum eins og félagsmiðstöð. Hann fór á námskeið og tók dómararéttindi í handbolta og var því fyrsti dómari sem HK eignaðist og ófáa leikina dæmdi hann í gegnum tíðina fyrir félagið.Það varð síðan mikill sjónarsviptir fyrir HK þegar Þorvarður Áki féll frá, langt um aldur fram. 


Á þessum tíma var einnig ungur maður sem sýndi starfi okkar strákanna mikinn áhuga og fylgdi okkur á alla leiki, en það var Þorsteinn nokkur Einarsson, síðar formaður HK, og er það enn þann dag í dag. 

Var umsókn um inngöngu HK í UMSK lögð inn og sátum við ungu strákarnir þingið sem gestir innan um alla jaxlana frá hinum félögunum. Eftir miklar umræður og pústra varð HK fullgilt aðildarfélag.Við tókum því þátt í fyrsta Íslandsmóti okkar sem löglegt félag veturinn 1970-1971 og fóru leikirnir fram í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi. Sendum við tvö lið til keppninnar, 3. og 4. flokk karla og var leikið í þremur riðlum þ.e. Reykjanesriðli, Reykjavíkurriðli og Norðurlandsriðli.Í okkar riðli voru því Grótta, UMFA, UBK, Stjarnan, FH, Haukar og Keflavík. 

Einnig fóru fram á þessum árum svokölluð Reykjanesmót og UMSK mót.Eftir ófarir okkar frá því árinu áður skiptum við um þjálfara og tók Þorsteinn Björnsson, markvörður Fram og íslenska landsliðsins, við þjálfun liðsins okkar.  

Vegna anna fékk Þorsteinn svo bróður sinn Sveinbjörn til að taka við þjálfuninni og gerði hann 4. flokk HK að Reykjanes- og UMSK meisturum. Þá urðum við í öðru sæti í Íslandsmótinu, sigruðum alla okkar leiki, en töpuðum úrslitaleiknum við Víking í sögulegum leik í Laugardalshöll með eins marks mun.Aðstæður til innanhússkeppni var frekar frumstæð á þessum árum og var t.d. leikið í bragga í Keflavík og ekkert almennilegt hús var komið í Mosfellssveit, Garðabæ eða Hafnarfirði, en í stað Hálogalands var nú Laugardalshöllin komin. 

Þá var íþróttahúsið við Strandgötu opnað þennan vetur og spilaði 4. flokkur HK vígsluleikinn við úrvalslið frá FH og Haukum. Þetta ár tókum við í notkun nýjan búning fyrir HK og samanstóð hann af hvítri keppnistreyju, rauðum sokkum og hvítum buxum með rauðum hliðar röndum. Félags- merkið okkar var upphaflega bara stafirnir HK, en síðan var settur skjöldur utan um stafina (eins og ÍR merkið) en þennan vetur ákváðum við að hafa HK stafina í rauðu hringlaga merki.

Fjáröflun okkar gerðist nú æ umfangsmeiri. Við leigðum Félagsheimili Kópavogs til dansleikjahalds og fengum frægustu hljómsveitir landsins til að spila hjá okkur og má þar nefna Svanfríði, Roof Tops o.fl.

Allt var unnið í sjálfboðavinnu á þessum árum enda áhuginn og eldmóðurinn ódrepandi hjá okkur strákunum. Peninga þurftum við til að greiða fyrir bolta, búninga, húsaleigu, þáttökugjöld í mótum og þjálfarinn fékk bensínstyrk. 

Árangurinn lét heldur ekki á sér standa. HK átti UMSK- og Reykjanesmeistara í 4. og 3. flokki og síðan 2. flokki á árunum sem á eftir komu auk þess sem góður árangur náðist einnig á Íslandsmótunum. 

Árið 1974 var aftur komið upp vandamál með æfinga aðstöðu hjá félaginu, fengum aðeins 7 tíma fyrir þrjá flokka. Horfðu menn þá með björtum augum til íþróttahússins í Digranesi sem þá átti að fara að byggja. Framkvæmdir við þá byggingu töfðust hins vegar fram úr hófi og tókst ekki að ljúka þeim fyrr en tíu árum síðar.Var húsið loks tekið í notkun árið 1983. 

Blakdeild HK var stofnuð árið 1974, forvígismenn hennar voru þeir Júlíus Arnarsson og Albert N.Valdemarsson. Knattspyrnudeild HK var síðan stofnuð 1992 eftir að starfsemi ÍK lagðist niður. 

Þegar stofnendur félagsins höfðu leikið upp alla yngri flokka félagsins kom að því að stofna meistaraflokk.Veturinn 1975-1976 var hann stofnaður og fengu HK menn til liðs við sig nokkra lögreglumenn í Reykjavík og var lið sent til þátttöku í 3. deild Íslandsmótsins í handknattleik. Þjálfari var Kristófer Magnússon og voru heimaleikir HK leiknir í Ásgarði í Garðabæ þar sem ekkert löglegt keppnishús var til í Kópavogi. 

Það er skemmst frá því að segja að HK varð Íslandsmeistari og fór því upp í aðra deild. Þar tók Axel Axelsson við þjálfun liðsins og fóru heimaleikir HK fram að Varmá í Mosfellsbæ. 

HK stoppaði stutt við í þeirri deild, gerðu sér lítið fyrir og urðu Íslandsmeistarar strax fyrsta árið og var því komið í fyrstu deild aðeins sjö árum eftir að félagið var stofnað.

Á þessari sögu HK sér hver maður að ástandið til íþróttaiðkana innanhúss hefur verið hrikalega erfitt hér í Kópavogi. 

Það má segja að skortur á viðeigandi íþróttahúsnæði sé samofið sögu HK. 

Enn í dag vantar félagið tíma fyrir allan þann fjölda ungs fólks sem vill iðka íþróttir í hinum ýmsu deildum félagsins og verða margir frá að hverfa.

Það er mikil skammsýni hjá bæjaryfirvöldum í Kópavogi að byggja ekki upp stærri íþróttahús við skóla bæjarins þ.e. Snælandsskóla og Lindaskóla. Á þessu herrans ári 2001, 31 ári eftir að félagið var stofnað er HK svo komið í Evrópukeppni bikarhafa í handknattleik. 

Skyldi okkur strákana nokkru sinni hafa órað fyrir því að þetta ætti allt saman eftir að gerast og verða að veruleika... og nú árið 2003 náði lið HK þeim merka áfanga að verða bikarmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins og komnir í Evrópukeppni bikarhafa í annað sinn á tveimur árum.

Magnús Gíslason