Brynjar Björn og HK framlengja samstarf sitt um þrjú ár

 

Brynjar Björn Gunnarsson og knattspyrnudeild HK hafa endurnýjað samning sín á milli um þjálfun meistaraflokks karla. Undir forystu Brynjars Björns hefur HK náð sínum besta samfellda árangri frá upphafi í efstu deild karla og hafnað í 9. sæti deildarinnar undanfarin tvö ár. Brynjar Björn náði jafnframt mjög góðum árangri á sínu fyrsta tímabili með HK þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild með því að lenda í 2. sæti í Inkasso deildinni. 

 „Ég er mjög ánægður með að semja við HK í þriðja sinn. Það hefur gengið vel hjá okkur á undanförnum árum en enn er tækifæri til frekari uppbyggingar og bætingar. Við í HK viljum eiga lið sem kveður að í efstu deild karla og kvenna og jafnframt gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri til að þróa leik sinn og komast út í atvinnumennsku. Á undanförnu ári hafa einmitt þrír leikmenn fengið tækifæri erlendis eftir að hafa staðið sig vel með HK. Við munum halda áfram með þær áherslur og byggja upp HK á þeim öfluga grunni sem fyrir er“, segir Brynjar Björn.   

„Við erum ánægð með að semja við Brynjar Björn og þar með tryggja okkur krafta hans til næstu þriggja ára. Brynjar gegnir lykilhlutverki í áframhaldandi uppbyggingu HK hvort heldur innan- eða utanvallar. Mikil fagmennska og metnaður einkennir allt starf Brynjar Björns og hafa framfarar liðsins verið eftirtektaverðar“, segir Frosti Reyr Rúnarsson formaður knattspyrnudeildar HK.  

 

Það eru spennandi tímar framundan hjá HK með Brynjar Björn við stjórnvölinn. 


GLEÐI - VIRÐING - METNAÐUR