Góður árangur og mikil gleði eftir síðasta mót tímabilsins

Íslandsmeistaralið eldra árs í 5. flokki kvenna
Íslandsmeistaralið eldra árs í 5. flokki kvenna

 Síðasta mót vetrarins hjá eldra ári 5. flokks kvenna fór fram fyrstu helgina í maí. Sem fyrr sendum við þrjú lið til leiks:

HK 1 – Héldu áfram líkt og verið hefur í vetur. Spiluðu hraðan og frábæran sóknarleik og refsuðu með hraðaupphlaupum. Eftir þrjá sigra og eitt jafntefli urðu þær að gera sér annað sætið að góðu í efstu deild vegna markatölu.

HK 2 - Hafa bætt sig jafnt og þétt í allan vetur og engin breyting varð á því á þessu móti. Stelpurnar hafa bætt sig gríðarlega á öllum sviðum og tryggðu sér annað sæti í annarri deild og hefðu því unnið sig upp í þá efstu ef fleiri mót hefðu verið eftir. Frábær árangur!

HK 3 – Spiluðu í þriðju deild og hafa sömuleiðis bætt sig með hverju mótinu. Eftir hörku leiki stóðu þær uppi með þrjú töp og eitt jafntefli. Stelpurnar sýndu mikinn baráttuanda og spiluðu oft flottan sóknarleik. Það var eftirtektarvert að stelpurnar gáfust ekki upp í leikjunum heldur héldu áfram með baráttuanda að vopni.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum frábæra hóp á næstu árum en þær hafa tekið gríðarlegum framförum í vetur. Stelpurnar í HK 1 voru verðlaunaðar eftir síðasta leik en þær höfðu þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í flokknum. Að móti loknu fagnaði flokkurinn góðum árangri vetrarins með því að fara saman í keilu.

Fyrir hönd flokksins,

Stefán Andri Stefánsson, þjálfari