Jakob Leó Bjarnason er nýr aðalþjálfari meistaraflokks kvenna HK

Jakob Leó Bjarnason hefur skrifað undir samning um að stýra meistaraflokki kvenna hjá HK til ársins 2022. Jakob hefur lokið UEFA A þjálfara gráðu frá KSÍ og er útskrifaður íþróttafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er með margra ára reynslu úr þjálfun á Íslandi og kemur til HK frá Haukum þar sem hann stýrði meistaraflokki félagsins í Lengjudeild kvenna síðustu þrjú ár. Þar áður var hann yfirþjálfari hjá Fylki og Þrótti. Ari Már Heimisson heldur áfram sem aðstoðarþjálfari og verður með Jakobi á hliðarlínunni.

Meistaraflokkur kvenna hjá HK var að klára sitt fyrsta keppnistímabil en liðið hóf leik í 2 deildinni á nýliðnu sumri. Tímabilið gekk gríðarlega vel og tryggðu stelpurnar sér sæti í Lengjudeildinni næsta sumar. HK mun áfram bjóða sömu umgjörð í karla og kvennaflokki en mikill metnaður einkennir allt starf í kringum meistaraflokk kvenna og eru allar aðstæður til fyrirmyndar. Öflugir yngri flokkar eru að koma upp innan félagsins og því ljóst að framtíðin er björt í efri byggðum Kópavogs.

Á sama tíma og við bjóðum Jakob velkominn þá þökkum við Jóhanni fyrir vel unnin störf í sumar og óskum honum velfarnaðar í náinni framtíð.