Knattspyrnudeild HK skerpir á áherslum í starfsemi sinni

Knattspyrnudeild HK hefur markað sér nýja sýn til næstu ára og farið í gegnum mikla endurskipulagningu á starfsemi sinni í samvinnu við KPMG.  Samhliða því hefur Ragnar Gíslason verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, Ómari Ingi Guðmundsson ráðinn yfirþjálfari og Viktor Bjarki Arnarson ráðinn afreksþjálfari auk þess sem hann er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.

Ragnar Gíslason mun bera ábyrgð á daglegum rekstri barna- og unglingastarfs knattspyrnudeildar HK.  Ragnar hefur starfað lengi sem þjálfari og síðast yfirþjálfari knattspyrnudeildar HK og þekkir því mjög vel til allra mála innan félagsins. 

Ómar Ingi Guðmundsson hefur einnig verið í þjálfarateymi HK á annan áratug og síðast sem annar af tveimur yfirþjálfurum félagsins.  Nú mun Ómar Ingi vera yfirþjálfari félagsins og verður viðveran hans mest á æfingasvæði félagsins þar sem hann mun fylgjast með æfingum, aðstoða þjálfara félagsins í sínum störfum sem og að bæta enn frekar gæði á æfingum félagsins.

Viktor Bjarki Arnarson sem hefur verið spilandi aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðustu tvö ár hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna og einbeita sér að þjálfun, nánar tiltekið áfram sem aðstoðarþjálfari Brynjars Björns Gunnarssonar en einnig sem afreksþjálfari í 2. og 3. flokki stúlkna og drengja.  Einnig mun Viktor Bjarki vera í teymi með yfirmanni knattspyrnumála og yfirþjálfara félagsins við að bæta alla umgjörð um knattspyrnuiðkun hjá HK sem og koma að afreksmálum  knattspyrnudeildarinnar í heild sinni.

Knattspyrnudeild HK er spennt fyrir nýjum tímum hjá félaginu og væntir mikils af þessum þremur afburða einstaklingum og óskar þeim góðs gengis í sínum störfum fyrir félagið. 

Framtíð HK er björt sem aldrei fyrr.

Áfram HK!