Ungar og efnilegar handboltakonur skrifa undir hjá HK

Amelía Laufey, Anna Valdís, Ethel Gyða, Margrét, Hekla Fönn, Leandra Náttsól og Katrín Hekla hafa al…
Amelía Laufey, Anna Valdís, Ethel Gyða, Margrét, Hekla Fönn, Leandra Náttsól og Katrín Hekla hafa allar gert tveggja ára samning við HK

Þær Amelía Laufey Miljevic, Anna Valdís Garðarsdóttir, Ethel Gyða Bjarnasen, Margrét Guðmundsdóttir, Hekla Fönn Vilhelmsdóttir, Leandra Náttsól Salvamoser og Katrín Hekla Magnúsdóttir hafa allar skrifað undir tveggja ára samaning við handknattleiksdeild HK. Stelpurnar eru allar hluti af frábærum hópi stúlkna úr 3. flokki félagsins sem urðu Íslandsmeistarar í vor eftir sigur á Haukum í úrslitaleik.

Amelía Laufey er öfugur línumaður, sterk og snögg sem hefur upp alla yngri flokka félagsins sýnt mikla leiðtogahæfileika sem nýtist henni vonandi í komandi verkefnum með meistaraflokki.

Anna Valdís er leikmaður sem spennandi verður að fylgjast með í vetur og hefur alla burði til þess að láta að sér kveða inni á vellinum. Hröð handboltakona, frábær maður á mann og viljug til þess að taka leiðsögn.

Ethel Gyða hefur í sumar fengið verðskuldaða athygli fyrir frábæra frammistöðu á heimsmeistaramóti 18 ára landsliða kvenna sem fram fór í Norður-Makedóníu. Ethel Gyða er einn af þeim leikmönnum sem hefur tekið gríðarlegum framförum á síðustu misserum og hefur alla burði til þess að verða einn af fremstu markmönnum Íslands. Í vikunni var hún valin í æfingahóp A-landsliðs Íslands.

Margrét er lunkinn, öflugur vinstri hornamaður sem kom inn í hóp meistaraflokks á síðasta tímabili og stóð sig með prýði. Margrét nýtir færin sín vel, er sterkur varnarmaður og öflugur liðsfélagi. Á lokahófi handknattleiksdeildar í vor var hún valin efnilegasti leikmaður meistaraflokks. 

Hekla Fönn er öflugur liðsstjórnandi. Hún les leikinn vel og skilningur hennar á handbolta er gríðarlega góður. Hún tekur leiðsögn mjög vel, er snögg, frábær liðsfélagi og með stórt HK hjarta.

Leandra Náttsól er öflugur hægri hornamaður, örvhent og frábær skotmaður. Jákvæð með eindæmum, snögg og áræðin. Leandra hefur tekið miklum framförum að undanförnu og kom sterk inn í hóp meistraflokks á síðasta tímabili.

Katrín Hekla er metnaðargjarn vinstri hornamaður sem einnig hlaut eldskírn með meistaraflokki í vor og stóð sig afar vel. Katrín er snögg, einbeitt og góður liðsfélagi sem spennandi verður að fylgjast með á komandi misserum.

Hér er á ferðinni frábær blanda af ungum handknattleikskonum úr HK. Það verður spennandi að fylgjast með stelpunum í deild þeirra bestu en þær spiluðu allar með U-liði félagsins í Grill 66 deild kvenna á síðasta tímabili þar sem liðið hafnaði í 4. sæti.  

Áfram HK!