Brynjar Björn framlengir samning sinn við HK um þrjú ár!

Brynjar Björn framlengir samning sinn við HK um þrjú ár

Brynjar Björn Gunnarsson og knattspyrnudeild HK hafa endurnýjað samning sín á milli um þjálfun meistaraflokks karla. Brynjar Björn náði mjög góðum árangri á sínu fyrsta tímabili með HK þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild með því að lenda í 2. sæti í Inkasso deildinni. HK setti jafnframt met í næst efstu deild (12 lið) með því að fá aðeins á sig 13 mörk í 22 leikjum.

Brynjar Björn býr yfir mikilli reynslu sem leikmaður og þjálfari. Hann er í hópi leikjahæstu leikmanna landsliðs okkar með 74 landsleiki eftir að hafa leikið með liðinu á árunum 1997 til 2009. Auk þess hefur hann leikið vel á fimmta hundrað deildarleiki. Brynjar Björn lék meðal annars fyrir KR, Våleranga, Moss, Örgryte, Stoke, Nottingham Forest, Watford og Reading á sínum ferli. Brynjar Björn lék í tvö ár í ensku úrvalsdeildinni með Reading og spilaði hann 43 leiki og skoraði 3 mörk. Jafnframt kom hann að þjálfun hjá úrvalsdeildarfélaginu meðan hann var enn leikmaður. Á árunum 2014 til 2017 var Brynjar Björn aðstoðarþjálfari Stjörnunnar og tók þar þátt í að landa Íslandsmeistaratitli.

Mikil fagmennska og metnaður hefur einkennt starf Brynjars Björns. Leikmannahópur HK hefur eflst til muna eftir komu hans. Eldri leikmenn hafa stígið upp og tekið frekari framförum, nýir öflugir leikmenn hafa gengið til liðs við félagið ásamt því að ungir og efnilegir HK-ingar eru orðnir hluti af hópnum.

„Ég er mjög ánægður með að framlengja samning minn við HK. Félagið er á hraðri uppleið hvort heldur sem er innan vallar eða utan. Mikið er af ungum og efnilegum leikmönnum í yngri flokkum félagsins sem verður spennandi að fylgjast með og þjálfa í framtíðinni. Við munum halda áfram að byggja ofan á það sem vel var gert í fyrra meðal annars með öguðum varnarleik og kröftugum sóknarleik“, segir Brynjar Björn.

Framtíð HK er björt með svo öflugan mann við stýrið og bíður liðsins spennandi sumar í Pepsi Max deildinni.