Hjalti Rúnar nýr aðalráðgjafi HK í líkamsþjálfun

Knattspyrnudeild HK hefur gengið frá samningi við Hjalta Rúnar Oddsson um að verða aðalráðgjafi deildarinnar í líkamsþjálfun. Hjalti hefur skipað sér á bekk með öflugustu þjálfurum landsins þegar kemur að líkamsþjálfun undanfarin ár og HK væntir mikils af samstarfinu.

Hjalti er sjúkraþjálfari að mennt og með meistaragráðu í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfar við kennslu og mælingar hjá íþróttafræðisviði Háskólans í Reykjavík. Hann hefur starfað með meistaraflokkum og yngri flokkum ÍA og undanfarin ár hefur hann verið styrktarþjálfari A landsliðs kvenna ásamt því að koma að fræðslu og mælingum á vegum KSÍ.

„Hjalti hefur störf um áramótin og mun starfa með þjálfurum og styrktarþjálfara félagsins að því að samþætta líkamsþjálfun í félaginu.“, segir Frosti Reyr Rúnarsson, formaður knattspyrnudeildar HK. „Hann mun að auki veita meistaraflokkum félagsins alhliða ráðgjöf varðandi líkamsþjálfunarþáttinn í samstarfi við styrktarþjálfara okkar. Markmið okkar í HK er að byggja upp eina af öflugustu knattspyrnudeildum landsins og þekking hans og reynsla mun vega þar þungt.  Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Hjalta til liðs við okkur.“