HK gerir 3 ára samning við sprotafyrirtækið Sportabler

HK hefur gert langtímasamning við Sportabler. Sportabler er íslenskt vef- og snjallsímaforrit sem gerir skipulagningu og samskipti í íþróttastarfi margfalt skilvirkari og einfaldari. Kerfið er ætlað þjálfurum, iðkendum, foreldrum, og starfsmönnum íþróttafélaga. HK hefur undanfarna mánuði verið með forritið í prófun og hefur innleiðing hjá fyrstu flokkum félagsins gefist vel. 

Markmið Sportabler er að styðja við og efla skipulagt íþróttastarf með tvennum hætti. Annarsvegar með því að auka skilvirkni í skipulags- og samskiptamálum, og hinsvegar með því að bjóða kennsluefni í þjálfun jákvæðra persónuleikaþátta í gegnum íþróttir, þar sem æfingar t.d. í sjálfstrausti eru fléttaðar með markvissum hætti inn í íþróttastarfið.

Ómar Ingi, Ragnar og Daníel Berg - Yfirþjálfarar yngri flokka í knattspyrnu og handbolta
“Sportabler er kærkomin viðbót við alla þá tækni sem við erum nú þegar að nota til þess að gera þjálfarstarfið og þjálfunina skilvirkari og skipulagðari. Að geta haft boðun í viðburði, samskipti við foreldra og halda utan um mætingu allt á sama stað, og í símanum þar að auki, eykur gæðin í okkar starfi. Sportabler býður þjálfurum okkar upp á lausnir sem gera það að verkum að tími í utanumhald og skipulagningu minnkar og gerir okkur keift að nýta betur tíma og einbeitingu í knattspyrnulega þáttinn hjá iðkendum okkar. Foreldrar og iðkendur sem hafa prófað Sportabler nú þegar hjá okkur í HK eru mjög ánægðir með forritið og hafa verið frá fyrsta degi”.

Birgir Bjarnason Framkvæmdastjóri HK
„Það er frábært að hafa klárað samning við Sportabler og mikil tilhlökkun hjá okkur í HK til samstarfsins. Hjá stóru íþróttafélagi eins og HK er mikilvægt að skapa þannig vinnu umhverfi fyrir þjálfara að tíma þeirra er vel varið. Með innleiðingu Sportabler tekur félagið stórt skref fram á við og er nú að eignast tækni sem einfaldar stóran þátt af þeirri skipulagsvinnu sem þjáflarar þurfa að sinna. Einnig verða samskipti við iðkendur og foreldra/forráðamenn skilvirkari og hefur það strax sýnt sig á þeim stutta prufutímanum sem við höfum notast við Sportabler.

Það sem gerir forritið meira spennandi en það sem býðst á markaðnum í dag er sá möguleiki að geta notað það til að styðja enn betur við íþróttastefnu félagsins og vera mikilvægur þáttur í Sýnum Karakter verkefninu sem HK hefur unnið með sl. misseri. Á komandi vikum og mánuðum hefst innleiðingarferli hjá HK og stefnt er að því að allar deildir, sem sjái hag sinn í að notast við forritið, hefji notkun á því í haust”.

Markús Máni M. Maute Framkvæmdastjóri Sportabler.
“Það er frábært að hafa gert langtímasamning við HK og vinna áfram með því góða fólki sem starfar hjá félaginu. HK hefur notað Sportabler undanfarnar vikur og er ánægjulegt að félagið hefji nú innleiðingu í fleiri flokka og deildir félagsins. Við erum stolt af þessum samningi og í senn afskaplega ánægð með samstarfið. Í sameiningu munum við vinna að því að gera gott íþróttastarf enn betra, við erum bara rétt að byrja!”

Frekari upplýsingar veita

Birgir Bjarnason – birgir@hk.is
Óli Þór Júlíusson – olithor@hk.is
Markús Máni M. Maute - markus@sportabler.com