Minning um fyrrum framkvæmdastjóra HK

Í dag var borinn til hinstu hvíldar fyrrum framkvæmdastjóri HK, Birgir Bjarnason, sem lést á líknardeild Landspítalans 7. febrúar 2023 eftir áralanga baráttu við veikindi.
Hann var fæddur 18. febrúar 1953 í Reykjavík og ólst upp í Hlíðunum.
Hann var giftur Guðbjörgu Sigmundsdóttir sem lifir eiginmann sinn og samanlagt eru börn þeirra fjögur og  barnabörnin orðin níu.

Birgir tók við starfi framkvæmdastjóra HK árið 2005 og á næstu árum urðu miklar breytingar á félaginu.  Iðkendafjöldi jókst mikið sem og fjöldi starfsmanna og sjálfboðaliða - og þar var Birgir bestur í að stýra og skipuleggja. Hann varð strax mikil HK-ingur og var ekkert verkefni of stórt eða lítið fyrir hann. Hann gætti vel að fjárhag félagsins og hafði þá stefnu að eyða ekki um efni fram.

Birgir var hjartahlýr maður sem allir í félaginu gátu leitað til og fólk kom ekki að tómum kofanum varðandi úrlausn mála.

Stjórn félagsins og starfsfólk HK sendir eiginkonu og afkomendum þeirra innilegar samúðarkveðjur við fráfall þess góða manns sem Birgir var.

Það er vel við hæfi að minningargreinin eftir Sigurjón Sigurðsson, fyrrum formann HK, fylgi hér með:

Það var árið 2005 sem Birgir Bjarnason hóf störf sem framkvæmdastjóri Handknattleiksfélags Kópavogs, HK. Það var mikil gæfa fyrir félagið að fá að njóta starfskrafta hans gegnum mikið breytingaskeið hjá félaginu næstu 15 árin. Það er ekki auðvelt að vera framkvæmdastjóri í stóru íþróttafélagi þar sem margir sjálfboðaliðar starfa og þar naut hann sín vel. Það má fullyrða að hans sýn hafi verið að ef fjármálin væru ekki í lagi þá væri ekkert í lagi. Þeirri skoðun deildum við fullkomlega að það væri betra að sníða sér stakk eftir vexti en fara fram úr sér í útgjöldum. Honum tókst einstaklega vel að halda mörgum boltum á lofti á sama tíma, í stækkandi félagi þar sem meiri aga við stjórnun var krafist, nokkuð sem tók tíma að innleiða án þess að hefta störf sjálfboðaliða. Á öllum þessum árum áttum við frábært samstarf, okkur varð nánast aldrei sundurorða þótt við værum báðir þverir og ákveðnir. Gagnkvæm virðing og vinskapur ríkti alltaf okkar á milli. Við deildum sameiginlegu áhugamáli í gólfinu sem þau hjónin stunduðu af miklu kappi. Við spiluðum alltaf nokkra hringi saman á hverju sumri og það varð alltaf að vera eitthvað til að keppa um, þetta var grafalvarlegur leikur, en alltaf líka eitthvert sprell og grín í gangi. Enda var Birgir mikill húmoristi af guðs náð með svo jákvæða og rétta sýn á þau verkefni sem við vorum að fást við. Ég mun sakna dýrmætrar vináttu einstaks ljúflings.

Elsku Guðbjörg og fjölskylda, við í HK biðjum góðan Guð að gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Sigurjón Sigurðsson,

fv. formaður HK.